Til sambandsaðila ÍSÍ

Reykjavík, 8. mars 2022 

Kæru félagar,

Íþróttahreyfingin er stærsta fjöldahreyfing landsins og fjölmörg ólík mál koma upp á hverjum degi sem við þurfum að glíma við og reyna að leysa.

Eins og öllum er ljóst þá geisar hörmulegt stríð í miðri Evrópu og fer það ekki framhjá neinum. Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) hefur fordæmt harðlega árásum Rússa á Úkraínu og vottað úkraínsku þjóðinni sína dýpstu samúð og stuðning sem og öllum þeim sem verða fyrir áhrifum þessara hræðilegu átaka.

Mikilvægt er að við höfum í huga að á Íslandi eru búsettir fjölmargir einstaklingar af rússneskum uppruna og börn þeirra ganga í leikskóla, grunnskóla og taka þátt í íþróttastarfi. Við viljum hvetja alla til að vera vel vakandi og sýna sérstaka aðgát í orðræðu okkar og samræðum. Það eru ekki Rússar eða rússneskur almenningur sem stendur fyrir þessum árásum heldur rússnesk yfirvöld. Við skulum öll gæta þess að óbreyttir borgarar og börn af rússneskum uppruna verði ekki fyrir fordómum og aðkasti vegna framferðis stjórnvalda. Grípum inn í ef við verðum þess áskynja að eitthvað slíkt sé í uppsiglingu í okkar nær umhverfi. Það að áreita börn af rússneskum uppruna mun sannarlega ekki stöðva stríðið heldur valda enn meiri óþarfa sársauka og vanlíðan. Tökum öll ábyrgð á því hvað við segjum og hlúum sérstaklega vel að öllum börnunum okkar.

Tryggjum að íþróttahreyfingin sé sá staður þar sem við stöndum vörð um okkar gildi, þ.e. að gera ávallt sitt besta, sýna vináttu og virðingu. Á það við alla, alltaf. Munum að íþróttahreyfingin á að berjast gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi í íþróttum, hvort sem um er að tefla mismunun vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar eða af öðrum toga.

Vinsamlegast komið þessum ábendingum áfram til íþrótta- og ungmennafélaga innan ykkar vébanda.

Kær kveðja / Best regards

Andri Stefánsson

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands / The National Olympic and Sports Association of Iceland

Framkvæmdastjóri / Secretary General

(+354) 514 4000 / (+354) 863 1525

www.isi.is