Afreksstefna Skotíþróttasambands Íslands 2018–2026

Það er stefna skotíþróttahreyfingarinnar á Íslandi að eiga á hverjum tíma íþróttamenn í fremstu röð í heiminum. Til að ná þeim markmiðum mun STÍ byggja upp afreksstarf Sambandsins með það að leiðarljósi að:

  • Okkar besta íþróttafólk hafi ætíð aðgang að bestu mögulegu íþróttaaðstöðu, þjálfun og
  • Veita sem bestan félagslegan stuðning svo að afreksstarfið falli sem best að lífsmunstri iðkenda.
  • Styðja við aðildarfélögin til að koma upp sem bestri aðstöðu vítt um landið, miðla þekkingu með námskeiðum og útgáfu fræðsluefnis og aðstoða félög við afreksmótun og skipulag.
  • Efla þjálfaramenntun innanlands með áframhaldandi samstarfi við Þjálfaraakademíu Alþjóðaskotsambandsins (ISSF).
  • Að auka þekkingu á dómgæslu í samvinnu við ISSF þannig að STÍ hafi aðgang að dómurum með alþjóðleg réttindi.

Unnið verður náið með Afrekssviði ÍSÍ við áætlanir og skipulagningu starfsins á sem breiðustum grundvelli.

Flokkun móta og íþróttafólks

Til skilgreiningar á stöðu okkar besta íþróttafólks skal miða við stöðu á heimslista og Evrópulista og árangri á einstökum mótum eftir styrkleika.

Flokkun móta eftir styrkleika er eftirfarandi:

A: Ólympíuleikar, Heimsmeistaramót, Paralympics.

B: Evrópuleikar, Evrópumeistaramót, Heimsbikarmót.

C: Norðurlandamót, Smáþjóðaleikar, Íslandsmeistaramót, Landsmót, Grand Prix mót.

Skilgreining á afreki er að komast í úrslit móta í flokki A og B, og flokkast íþróttamaður er nær þeim árangri sem framúrskarandi.

Afreksfólk eru þeir íþróttamenn sem ná sæti meðal 100 bestu á heimslista og/eða 60 bestu á Evrópulista.

Í þeim greinum þar sem heims- og Evrópulisti er ekki gefinn út, skal miða við að árangur úr mótum í A og B flokki sé að meðaltali ofar en 40. sæti á tveggja ára tímabili í tveimur mótum hið minnsta.

Afreksefni er það íþróttafólk sem er nálægt árangri afreksfólks og vinnur markvisst að bætingu.

Afrekshópar og þátttaka í mótum

Til að Ísland eigi á hverjum tíma íþróttamenn í fremstu röð í heiminum mun STÍ  halda úti afrekshópum í okkar farsælustu skotgreinum sem skipaðir verða okkar besta íþróttafólki þar sem þátttaka á Ólympíuleikum er sett fram sem helsta takmark íþróttamannanna.

Afrekshópum verður sköpuð sú aðstaða og umgjörð sem er nauðsynleg til að ná skilgeindum afreksmarkmiðum. Í því er fólgið að ráða viðurkennda þjálfara og fagaðila til verkefna þeim tengdum og að sinna þeim þörfum sem talin eru nauðsynleg.

Lögð verður áhersla á að taka þátt í öllum heimsmeistaramótum, Evrópumeistaramótum og sem flestum heimsbikarmótum. Markmiðið er að skila okkur framúrskarandi íþróttamönnum sem komast í úrslit og eiga þar með möguleika á að vinna til verðlauna.

Við val í afrekshópa og landsliðsverkefni skal fara eftir reglugerðum STÍ.

Uppbygging

Öll uppbygging og grasrótarstarfsemi í íþróttaskotfimi er frábrugðin öðrum íþróttum hér á landi, þar sem skotmenn hafa ekki getað byrjað að stunda íþrótt sína af fullri alvöru fyrr en um tvítugt vegna ákvæða í íslenskum lögum. Þessi mismunun gagnvart öðrum löndum hefur gert okkur ókleyft að vera með unglingastarf og byggja upp íþróttamenn á þeim aldri þegar þeir eru sem móttækilegastir. Það var fyrst með breyttum lögum frá 1999 og svo aftur 2003 að við gátum byrjað kennslu frá fimmtán ára aldri í flestum greinum. Þess ber að geta að keppnisaldur í skotíþróttum er mjög hár miðað við flestar aðrar íþróttagreinar Sá lágmarkstími sem það tekur að ná afreksárangri eru 6-10 ár, Því er skilgreining á ungum skotmanni 15–25 ár. Til útskýringar má nefna að ISSF skilgreinir skotmenn upp að 21 árs aldri sem unglinga. Aðildarfélög STÍ hafa nú hafið unglingastarf sem miðast við unglinga frá fimmtán ára aldri og er á dagskrá að efla það starf til muna á komandi árum.

Áætlanir

Fyrir hvert keppnistímabil (skilgreint nú frá janúar til janúar í öllum greinum) skal leggja fram aðgerðaáætlun fyrir næstu tvö tímabil um æfinga og keppnisferðir landsliða og önnur verkefni tengd afreksstarfi. Framkvæmdastjóri, íþróttastjóri og þjálfarar í samstarfi við fagteymi leggja áætlanir fyrir stjórn til endurskoðunar, lokafrágangs og samþykktar.

Framkvæmd

Stjórn STÍ hefur umsjón með allri framkvæmd afreksstefnu og vinnur í samráði við framkvæmdastjóra, íþróttastjóra, landsliðsþjálfara og fagaðila sem skila skýrslum til stjórnar. Stefnan er endurskoðuð árlega og lögð fram á skotþingi til umsagnar.

Aðstöðumál

Aðstaða til íþróttaskotfimi er í um tuttugu bæjarfélögum á landinu. Gæði þessara skotvalla eru misjöfn og eru sumir vellir eingöngu fyrir eina tegund skotfimi en aðrir fyrir fleiri.

Aðstaða til æfinga fyrir landslið og landsliðshópa hefur batnað verulega á undanförnum árum og er nú hægt að stunda æfingar við bestu tæknilegu aðstæður í flestum Ólympískum skotgreinum. Enn vantar þó úti aðstöðu fyrir 25 og 50 m riffil og skammbyssu. Þó aðstaða til æfinga sé góð á mörgum skotvöllum og ágæt til keppni fyrir allt að miðlungs stór mót, er mikil vöntun á góðum keppnisvöllum sem geta tekið á móti auknum fjölda keppenda. Er það markmið STÍ til framtíðar að koma upp þjóðarleikvangi fyrir skotíþróttir sem getur annað stærri verkefnum.

Þrátt fyrir bætta aðstöðu mun þó ávallt vera nauðsynlegt fyrir okkar besta íþróttafólk að leita út fyrir landsteinana vegna veðurfars á Íslandi, sérstaklega í haglagreinum þar sem að undirbúningstímabil er frá nóvember til mars þegar veður og birtuskilyrði eru óhagstæð.

Styrkleikar/ veikleikar

Styrkur íþróttaskotfimi á Íslandi er mjög mismunandi eftir hvaða greinar er um að ræða, en almennt er sá mikli áhugi sem Íslendingar hafa jafnan sýnt allri skotfimi og sú hefð sem íþróttin byggir á hér á landi okkur mikilsverður. Einnig sú staðreynd að brottfall er mjög lítið miðað við aðrar íþróttagreinar og hve langt fram eftir aldri hægt er að vera í fremstu röð sem keppandi í íþróttinni.

Veikleikar eru einnig mismunandi eftir greinum, en almennt má segja að fjárskortur sé okkar helsti baggi. Einnig má nefna að veðurfar á Íslandi gerir okkur erfitt fyrir í mörgum greinum.

Tækifæri/ ógnanir

Okkar helstu tækifæri eru tengd uppbyggingu á unglingastarfi, en það var fyrst árið 1999 með nýjum vopnalögum að okkur var gert mögulegt að hefja unglingastarf. Það  og sú uppbygging sem við höfum hafið í þjálfaramenntun munu koma til með að skipta okkur mestu í framtíðinnni. Enn er þó skilyrði í lögum að unglingur getur ekki hafið iðkun skotíþrótta fyrr en við 15 ára aldur. Vilji er hjá yfirvöldum að breyta því til lækkunar og reiknum við með til að það komi til framkvæmda á næstu misserum/árum.

Okkar helstu ógnanir eru þekkingarleysi á skotfimi sem íþróttagrein og sinnuleysi sumra bæjarfélaga gagnvart aðstöðu skotíþróttafélaga. Þá er löggjöf um skotvopn einnig þröskuldur en þar eru íþróttinni settar hindranir sem eru í hróplegu ósamræmi við það sem víðast þekkist í heiminum.

Hvað er í boði hér heima/ hvað sækjum við erlendis

  • Á Íslandi höfum við skotvelli í flestum þeim greinum sem eru undir merkjum STÍ. Þar er hægt að stunda allar venjulegar æfingar þar til keppandi nær landsliðsgetu.
  • Þekking til þjálfunar og kennslu er til staðar fyrir byrjendur og millistig. Mótahald undir merkjum STÍ og aðildarfélögum þess sinnir flestum þörfum hins almenna skotíþróttamanns.
  • Þeir þættir sem sækja verður til útlanda eru þjálfun og kennsla okkar betri skotmanna og menntun þjálfara og dómara, ásamt keppni á sterkari skotmótum. Einnig er nauðsynlegt fyrir okkar bestu skotmenn sem keppa í útigreinum að æfa erlendis yfir vetrarmánuðina.

Fjármögnun

Hingað til hefur fjármögnun afreksstarfs Sambandsins að mestu komið úr Afrekssjóði ÍSÍ og með fjármögnun sjálfra íþróttamannanna. Illa hefur gengið að fá styrktaraðila til samstarfs um afreksverkefni og önnur verkefni STÍ.

Með betri kynningu á skotíþróttum og okkar afreksfólki sem jákvæðu innleggi í íþróttaflóru Íslendinga, er mögulegt að auka hlut styrktaraðila í afreksstarfinu og snúa við þeirri ímyndarhræðslu sem að fyrirtæki og stofnanir bera til skotíþrótta.

Niðurlag

Hugur afreksfólks í skotíþróttum stefnir ávallt fram á við og er það hlutverk STÍ að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst, og stefna hærra. Allar okkar væntingar velta á þeirri staðreynd að kostnaður við afreksstarf er mikill og fjármögnun erfið. Bætt fjárhagsleg staða STÍ til afreksmála sérstaklega vegna bættrar stöðu afrekssjóðs ÍSÍ hefur gefið okkur byr og bjartsýni til framtíðar með auknum möguleikum á enn betri árangri.

Sterk afreksstefna skilar sér út í grasrótina þar sem skotmenn fá markmið til að keppa að og almennur áhugi á íþróttinni eykst með umfjöllun um afrek. Fjármagn og aðstaða eru þeir höfuðþættir sem munu segja til um framgang afreksstefnu. Stefnan verður endurskoðuð að ári með tilliti til framkvæmdar þessa árs, og árangurs og stöðu hverrar skotgreinar fyrir sig.

Stjórn Skotíþróttasambands Íslands

Nóvember 2018