Þann 26. júní hófst keppni í leirdúfuskotfimi (skeet) og var Hákon Þór Svavarsson meðal keppenda. Fyrirkomulagið er þannig að fyrri daginn eru skotnar 75 leirdúfur eða þrisvar 25 dúfur og seinni daginn eru skotnar 50 dúfur, eða tvisvar 25. Hákoni gekk ágætlega fyrri daginn og skaut 67 (22-22-23) og var í 25. sæti af 29 keppendum. Seinni daginn skaut Hákon 42 af þeim 50 sem voru í boði, eða 20 og 22 stig. Lauk Hákon því keppni með 109 af 125 stigum og varð í 26. sæti af 29 keppendum. Sex efstu fóru áfram í úrslit og voru þeir að skora 121 og 122 stig í undankeppninni. Sigurvegari varð Stefan Nilsson frá Svíþjóð og vann hann sér í leiðinni kvótapláss á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.