Íslandsmeistaramótið í 50m liggjandi riffli fór fram í Íþróttahúsinu Digranesi laugardaginn 4. maí 2019.
Í stúlknaflokki mætti einn keppandi til leiks, Viktoría E. Bjarnarson, Skotfélagi Reykjavíkur, sem varð Íslandsmeistari í þeim flokki. Skor Viktoríu var 536,3 stig.
Í kvennaflokkum voru tveir keppendur og þar hafði Jórunn Harðardóttir, Skotfélagi Reykjavikur, sigur á Guðrúnu Hafberg sem keppti fyrir Skotíþróttafélag Kópavogs. Skor Jórunnar var 607,0 stig en skor Guðrúnar584,0 stig.
Í opnum karlaflokki voru keppendur öllu fleirri eða 16. Þar sigraði Jón Þór Sigurðsson, Skotíþróttafélagi Kópavogs, og varð Íslandsmeistari karla. Skor Jóns Þórs var 616,1 stig. Guðmundur Helgi Christensen var í öðru sæti, 9,5 stigum á eftir Jóni Þór en skor Guðmundar Helga, sem keppti fyrir Skotfélag Reykjavíkur, var 606,6 stig.
Valur Richter, Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar, varð þriðji en skor Vals var 605,1 stig.
Í liðakeppninni sigraði A sveit Skotíþróttafélags Kópavogs, skipuð Stefáni Eggerti Jónssyni, Arnfinni Auðunni Jónssyni og Jóni Þór Sigurðssyni. Skor þeirra var 1820,8 stig. A sveit Ísfirðinganna með þá Varl Richter, Guðmund Valdimarsson og Ívar Má Valsson innanborðs landaði öðru sætinu á 1795,4 stigum og sveit Skotfélags Reykjavíkur varð í þriðja sæti með 1789,5 stig. Sveit SR-inganna var skipuð Guðmundi Helga Christensen, Þorsteini Bjarnarsyni og Þóri Kristinssyni.
Þá var jafnframt keppt í einstökum getuflokkum og má lesa úrslit þeirra út úr skorblaði mótsins.