Skotíþróttakeppni WOW Reykjavik International Games fór fram í Egilshöllinni í gær. Keppt var í opnum flokki með annarsvegar loftskammbyssu og hinsvegar með loftriffli. Jórunn Harðardóttir úr SR gerði sér lítið fyrir og vann í báðum flokkum og setti fjögur Íslandsmet. Guðmundur Helgi Christensen úr SR var valinn besti karl mótsins en hann var í 2.sæti í keppni með loftriffli og 4.sæti í loftskammbyssu.
 
Í loftskammbyssu var Íslandsmet Jórunnar 557 stig og í loftriffli 604,9 stig en bæði þessi met voru sett í riðlakeppninni. Hún setti svo einnig Íslandsmet kvenna í úrslitum með loftriffli, 239,7 stig og úrslitum með loftskammbyssu, 219,0 stig. 

Tvö Íslandsmet voru auk þess sett í unglingaflokki kvenna, Ingibjörg Ylfa Gunnarsdóttir úr SR setti met í loftskammbyssu þegar hún fékk 374 stig og Viktoría Erla Þ. Bjarnarson úr SR setti met í loftriffli með 562,3 stig. Þess ber að geta að breyting varð á reglum Alþjóða skotíþróttasambandsins (ISSF) í kvennakeppninni frá áramótum þannig að konur skjóta nú jafnmörgum skotum og karlar, 60 alls.
 
Verðlaunahafar mótsins voru:
 
Loftriffill
1 Jórunn Harðardóttir, Skotfélagi Reykjavíkur, 239,7 stig
2 Guðmundur Helgi Christensen, Skotfélagi Reykjavíkur, 223,9 stig
3 Helgi S. Jónsson, Skotdeild Keflavíkur, 198,9 stig
 
Loftskammbyssa
1 Jórunn Harðardóttir, Skotfélagi Reykjavíkur, 219,0 stig
2 Elías M. Kristjánsson, Skotfélagi Akraness, 207,5 stig
3 Karl Kristinsson, Skotfélagi Reykjavíkur, 188,7 stig.