Þrjú Íslandsmet féllu á Reykjavíkurmóti í skotfimi sem haldið var hjá Skotfélagi Reykjavíkur (SR) í Egilshöll í dag. Íris Eva Einarsdóttir (SR) setti nýtt Íslandsmet í loftriffli kvenna og skaut 605,4 stig og varð samtímis Reykjavíkurmeistari. Í öðru sæti varð Jórunn Harðardóttir (SR) með 595,3 stig og í þriðja sæti varð Bára Einarsdóttir úr Skotíþróttafélagi Kópavogs (SFK).
Í unglingaflokki varð Viktoría Erla Bjarnarson (SR) Reykjavíkurmeistari á 547,5 stigum og í öðru sæti varð Alexandra Björg Vilhjálmsdóttir (SR) með 479,1 stig. Þær Íris, Jórunn og Viktoría settu einnig nýtt Íslandsmet í liðakeppni kvenna, 1748,2 stig.
Þriðja Íslandsmetið féll í loftriffli unglinga þar sem Magnús Guðjón Jensson bætti fyrra met sitt og skaut 568,1 stig, í öðru sæti varð Jakub Ingvar Pitak með 535,7 stig og þriðji varð Elmar Torstein Sverrisson með 502,8 stig. Þeir félagar eru allir í Skotdeild Keflavíkur (SK).
Í loftriffli karla náði Guðmundur Helgi Christensen (SR) Reykjavíkurmeistaratitlinum á 586,9 stigum, Robert Vincent Ryan (SR) hreppti annað sætið með 556,6 stig og í þriðja sæti varð Þórir Kristinsson (SR) á 543,6 stigum.
Reykjavíkurmeistari í loftskammbyssu karla varð Ásgeir Sigurgeirsson úr SR á 582 stigum, Þorlákur Bernhard náði öðru sæti með 514 stig og félagi hans Ingvi Eðvaldsson úr Skotdeild Keflavíkur varð þriðji með 513 stig. Reykjavíkurmeistari í loftskammbyssu kvenna varð Jórunn Harðardóttir (SR) á 553 stigum og í öðru sæti varð Bára Einarsdóttir úr SFK með 527 stig.
Reykjavíkurmeistari loftriffill kvenna Íris Eva Einarsdóttir
Reykjavíkurmeistari loftriffill kvenna unglinga Viktoría Erla Bjarnarson
Reykjavíkurmeistari loftriffill karla Guðmundur Helgi Christensen
Reykjavíkurmeistari loftskammbyssa kvenna Jórunn Harðardóttir
Reykjavíkurmeistari loftskammbyssa karla Ásgeir Sigurgeirsson