Frétt af isi.is :
Flokkun sérsambanda í afreksflokka
Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ í gær, 31. ágúst, var tillaga Afrekssjóðs ÍSÍ um flokkun sérsambanda í afreksflokka samþykkt samhljóða.
Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ, 13. grein, er fjallað um að Afrekssjóður ÍSÍ skuli árlega flokka sérsambönd ÍSÍ í afreksflokka út frá skilgreindum viðmiðum. Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ hefur á síðustu vikum og mánuðum kallað eftir skilgreiningum og upplýsingum frá sérsamböndum ÍSÍ um fjölmörg atriði er tengjast afreksíþróttastarfi viðkomandi sérsambands, s.s. árangri í mótum, skipulagi afreksstarfsins og helstu áhersluatriðum. Þessi vinna Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ liggur til grundvallar tillögum Afrekssjóðs ÍSÍ til framkvæmdastjórnar ÍSÍ um flokkun sérsambanda í afreksflokka.
Skiptingin er sem hér segir:
A-Afrekssérsambönd | B-Alþjóðleg sérsambönd | C-Þróunarsérsambönd | Án flokkunar |
FSÍ | BSÍ | AKÍS | HNÍ |
FRÍ | BLÍ | BTÍ | MSÍ |
GSÍ | DSÍ | GLÍ | |
HSÍ | ÍHÍ | HRÍ | |
ÍF | JSÍ | LSÍ | |
KSÍ | KAÍ | SÍL | |
KRA | KLÍ | ÍSS | |
KKÍ | LH | TKÍ | |
SSÍ | SKÍ | TSÍ | |
STÍ | ÞRÍ | ||
SKY |
Í A-flokki eru sérsambönd sem taka reglulega þátt í keppni í hæsta stigi í viðkomandi íþróttagrein með frábærum árangri á síðustu fjórum árum. Gerðar eru kröfur um umfangsmikið afreksíþróttastarf í sérsambandinu og þurfa samböndin að uppfylla fjölmörg atriði sbr. grein 13.1. í reglugerð sjóðsins.
Í B-flokki eru sérsambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega alþjóðlega þátttöku á heimsvísu í viðkomandi íþróttagrein, þar sem einstaklingar eru að keppa um stig á heimslista og reyna að vinna sér þátttökurétt á Heimsmeistara- og Evrópumótum og/eða Ólympíuleikum/Paralympics. Gerðar eru kröfur um ákveðna umgjörð hjá sérsambandinu sbr. grein 13.2 í reglugerð sjóðsins.
Í C-flokki er um að ræða sérsambönd sem ekki komast í flokk A eða B en taka þó þátt í alþjóðlegu landsliðsstarfi. Eru það sérsambönd sem taka þátt í Heimsmeistaramótum, Evrópumótum eða Norðurlandamótum og nýta þá kvóta sem þeir hafa vegna þessara móta, eða eru að keppa í forkeppnum eða neðstu stigum viðkomandi greina. Minni kröfur eru gerðar til umfangs og umgjarðar afreksstarfs hjá þessum sérsamböndum sbr. grein 13.3 í reglugerð sjóðsins.
Flokkurinn „Án flokkunar” inniheldur þau sérsambönd sem ekki hafa skilað inn upplýsingum um afreksstarf og skilgreiningar til ÍSÍ.
Hafa ber í huga að flokkun sérsambanda í afreksflokka er símat og getur tekið breytingum eftir aðstæðum og stöðu sérsambanda hverju sinni.
Ráðgert er að skipting á því framlagi sem úthlutað verður úr Afrekssjóði ÍSÍ árið 2017 verði þannig að 70% framlagsins fari til sérsambanda í A-flokki, 27% til sambanda í B-flokki og 3% til sambanda í C-flokki.