Skotíþróttasamband Íslands (STÍ) hefur hlotið viðbótarstyrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna landsliðsverkefna ársins 2017.  Um er að ræða styrk að upphæð 4,2 m.kr. sem bætist við fyrri úthlutun til sambandsins, en sambandið

 

hlaut styrk að upphæð 3.850.000 kr. í fyrri úthlutun ársins úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Aukin þátttaka skotíþróttafólks á erlendum mótum og á sama hátt betri árangur hefur verið áberandi á árinu.  Má þar m.a. nefna að meiri fjölbreytni her orðin innan sambandsins og á það bæði við loftgreinar, kúlugreinar og haglagreinar.  Hefur STÍ þannig átt keppendur á öllum helstu stórmótum ársins og hafa íslenskir keppendur verið að ná settum lágmörkum og komast m.a í úrslit á Evrópumeistaramótum.  Verið er að vinna markvisst að eflingu afreksstarfsins innan STÍ og má segja að stuðningur Afrekssjóðs ÍSÍ skipti þar verulegu máli.

 

Á myndinni má sjá þau Lilju Sigurðardóttur, formann Afrekssjóðs ÍSÍ, Líneyju Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ, Halldór Axelsson, formann STÍ og Guðmund Kr. Gíslason, framkvæmdastjóra STÍ.