Hákon Þór Svavarsson hefur nú lokið keppni á Ólympíuleikunum og gerði það með stæl með því að brjóta allar leirdúfurnar í síðustu hrinu, 25 talsins og endaði á 116 í mótinu. Skorið var mjög stöðugt 23 – 23 – 23 – 22 – 25. Hann hafnaði í 23.sæti sem er frábær árangur á stærsta sviði skotfiminnar.
Í úrslitin fóru 6 efstu skotmennirnir og enduðu þau með sögulegum sigri bandaríkjamannsins Vincent Hancock sem tryggði sér sín fjórðu gullverðlaun á Ólympíuleikum, einstakt afrek. Landi hans Conner Lynn Prince varð annar og Taipeimaðurinn Meng Yuan Lee hlaut bronsið.