Hákon Þór Svavarsson, skotíþróttamaður, hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóða ólympíunefndin staðfesti svo í dag. Hákon Þór verður þar með þriðji Íslendingurinn sem kemst inn á Ólympíuleikana sem haldnir verða í júlí og fram í ágúst. Hákon Þór fékk boðssæti sem Alþjóða ólympíunefndin (IOC) staðfesti í dag. Hákon hefur stefnt markvisst að því að komast á leikana undanfarin ár en hann er nú staddur í Lonato á Ítalíu þar sem keppni á Heimsbikarmótinu er að hefjast.
Framundan eru ennþá mót hjá íþróttafólkinu sem mynda Ólympíuhóp ÍSÍ, sem og öðru íslensku íþróttafólki, sem enn á möguleika á því að vinna sér inn þátttökurétt en vonir standa til að það fjölgi í hópnum sem fer á Ólympíuleikana á næstu vikum. Anton Sveinn McKee, sundmaður, og Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona hafa nú þegar tryggt sér þátttökurétt á leikunum.
STÍ og ÍSÍ óska Hákoni Þór innilega til hamingju með þátttökusætið og góðs gengis í undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana.