Afreksstefna Skotíþróttasambands Íslands  2009-2016

 Forsaga :

Skotíþróttir hafa verið stundaðar skipulega á Íslandi frá árinu 1867 þegar Skotfélag Reykjavíkur var stofnað. Skotíþróttasamband Íslands var stofnað árið 1979 og hefur

yfirumsjón með afreksmálum skotíþrótta-fólks.

Á síðustu áratugum hafa margsinnis komið hingað til lands skotþjálfarar í hinum ýmsu skotgreinum og skotmenn farið utan til æfinga. Erlendur þjálfari var svo ráðinn árið 1997 til að sinna uppbyggingu haglabyssuskotfiminnar og reyndist hann afar vel (tæknilega) en varð skothreyfingunni ákaflega dýr. Meðan ekki er úr meira fjármagni að spila en raun ber vitni, verður ekki farið útí ráðningu þjálfara að nýju, nema við breyttar forsendur.

Staðan í dag:

Enginn þjálfari er með samning við STÍ í dag. Aðildarfélögin eru mörg með þjálfara sem allir eru innlendir og hafa menntað hafa sig til þjálfunar á vegum STÍ,  ennfremur koma reglulega hingað erlendir þjálfarar á vegum einstaklinga eða aðildarfélaga

Aðstaða:

Með tilkomu nýrra skotvalla Skotfélags Reykjavíkur bæði á Álfsnesi fyrir utanhússskotfimina og innanhúss í Egilshöllinni mun aðstaða fyrir landsliðsæfingar batna gríðarlega en þar munu reglulegar æfingar geta staðið yfir þrátt fyrir æfinga annarra þar sem svæðin eru það stór að þau taka við þeim fjölda sem sækir á skotvelli á höfuðborgarsvæðinu.

Aðstaða til íþróttaskotfimi er í sautján bæjarfélögum á landinu, þar af eru fjórtán undir hatti STÍ og tvö til viðbótar væntanleg. Gæði þessara skotvalla eru misjöfn og eru sumir vellir eingöngu fyrir eina tegund skotfimi en aðrir fyrir fleiri.

HAGLAGREINAR: 

SKEET: 12 skotvellir

TRAP: enginn skotvöllur

DOUBLE TRAP: enginn skotvöllur

ABT: 3 skotvellir

Riffil og Skammbyssugreinar:

Riffil og Skammbyssa úti: 3 Skotvellir.

Riffill og Skammbyssa inni: 4 skotvöllur.

Loftriffill og loftskammbyssa: 5 skotvellir.

Útbreiðsla:

Samkvæmt síðustu starfskýrslum ÍSÍ eru í dag 19 aðildarfélög eða deildir með skráða 2,231

iðkendur. Má segja að sú starfsemi sé vítt og breitt um landið þó fjöldinn sé mestur á höfuðborgarsvæðinu.

Styrkleiki/ veikleiki:

Styrkur íþróttaskotfimi á Íslandi er mjög mismunandi eftir hvaða greinar er um að ræða, en almennt er sá mikli áhugi sem Íslendingar hafa jafnan sýnt allri skotfimi og sú hefð sem íþróttin byggir á hér á landi okkur mikilsverður, einnig sú staðreynd að brottfall er mjög lítið miðað við aðrar íþróttagreinar og hve langt fram eftir aldri hægt er að vera í fremstu röð sem keppandi í íþróttinni.

Veikleikar eru einnig mismunandi eftir greinum, en almennt má segja að fjárskortur sé okkar helsti baggi. Einnig má nefna að veðurfar á Íslandi gerir okkur erfitt fyrir í flestum greinum.

Tækifæri/ ógnanir:

Okkar helstu tækifæri eru tengd uppbyggingu á unglingastarfi, það var fyrst árið 1999 að með nýjum vopnalögum var okkur gert mögulegt að hefja unglingastarf, og með þeirri uppbyggingu sem við höfum hafið í þjálfaramenntun munu þessir tveir þættir koma til með að skipta okkur mestu í framtíðinnni. Nú eru í smíðum ný vopnalög og reglugerð, hefur STÍ

átt fulltrúa í nefnd Dómsmálaráðuneytis. Lögin verða lögð fyrir Alþingi á þessu ári og ef þau verða samþykkt án mikilla breytinga munum við nálgast lagaramma sem er svipaður og hjá nágrannalöndum okkar.

Okkar helstu ógnanir eru þekkingarleysi á íþrótt okkar og sinnuleysi sumra bæjarfélaga gagnvart aðstöðu skotíþróttafélaga. Þá er löggjöf um skotvopn einnig þröskuldur en þar eru íþróttinni settar hindranir sem eru í hróplegu ósamræmi við það sem víðast þekkist í heiminum.

Hvað er í boði hér heima/ hvað sækjum við erlendis:

Hér heima höfum við skotvelli í flestum þeim greinum sem eru undir merkjum STÍ, allar venjulegar æfingar er hægt að stunda, þar til keppandi nær landsliðsgetu.

Þekking til þjálfunar og kennslu er til staðar fyrir byrjendur og millistig. Mótahald undir merkjum STÍ og aðildarfélögum þess, sinnir flestum þörfum hins almenna skotíþróttamanns.

Þeir þættir sem sækja verður til útlanda eru þjálfun og kennsla okkar betri skotmanna og menntun þjálfara og dómara, ásamt keppni á sterkari skotmótum. Einnig er nauðsynlegt fyrir okkar bestu skotmenn, sem keppa í útigreinum að æfa erlendis yfir vetrarmánuðina.

Afrek:

Skilgreining STÍ á afreki:

Allar viðmiðanir tengjast árangri á mótum sem eru viðurkennd af Alþjóða skotíþróttasambandinu “ ISSF ” .

Á undanförnum árum hefur það verið talið afrek að ná því skori sem er Ólympíulágmark “MQS“ í hverri skotgrein á mótum hérlendis, og gildir þessi árangur til meistaraflokks í flokkakerfi STÍ. Árangur á mótum hérlendis þar sem álag á skotmanninn er minna en á fjölþjóðamótum krefst hærra skors til þess að teljast afrek og má segja að þau sömu skor og myndu duga til þáttöku í úrslitum á mótum ISSF teljist afrek skoruð hérlendis.

Sá árangur sem við teljum vera afrek á erlendum vettvangi er að ná MQS árangri þ.e. Ólympíulágmarki á einu af þeim mótum sem gefa rétt til þáttöku á Ólympíuleikum. Þess má geta að það kerfi sem er notað af ISSF til ákvörðunar á þáttöku á Ólympíuleikum er að um helmingur keppenda í hverri grein (yfirleitt 20 – 25 keppendur ) vinna sér “ quota place” með því að ná tilsettum árangri (yfirleitt verðlaunasæti) á mótum ISSF, ári fyrir Ólympíuleika . Þessi árangur veitir öruggan rétt til þáttöku á leikunum. Síðan er valinn sambærilegur fjöldi skotmanna úr þeim hópi sem náð hefur MQS.  Þessu lágmarki er hægt að ná á öllum álfu, heimsbikar og heimsmeistaramótum ISSF milli leika, 6-7 mót á ári hverju.

Allur árangur í skotfimi er tengdur skori og nálgun á ákveðnu fullnaðarskori þ.e. 100% hittni. Mikill munur er á stigagjöf skotgreina eftir því hve mörgum skotum er skotið og hvort skotið er á pappaskífu, leirskífu eða þær ýmsu reglur sem snúa að þeim tíma sem skotmaðurinn hefur til umráða, útbúnaði skotmanns og umhverfi.

Þrátt fyrir að STÍ noti aðallega skor íþróttamanna til ákvörðunar á þáttöku skotmanna á erlendum mótum og við val á landsliðsmönnum og að sjálfsögðu til meta, munum við að þessu sinni ekki telja ákveðin skor hér heima til afreka nema að þau séu Íslandsmet.

Gagnvart árangri á erlendum mótum teljum við það afrek að ná 20. sæti eða ofar á fyrrgreindum mótum ISSF og verðlaunasæti á öðrum viðurkenndum mótum.

 Markmið:

Almennt markmið:

Að byggja upp hóp skotíþróttamanna sem vinna til verðlauna á alþjóðlegum stórmótum.

Langtímamarkmið:

Afreksstefna verður að vera í stöðugri endurskoðun. Hjá STÍ stefnum við á þáttöku á  Ólympíuleikum í London 2012 og að eiga sterka keppendur í a.m.k einni eftirtalinna greina Skeet, Loftskammbyssu eða Loftriffli á þeim leikum. Einnig hefur STÍ hafið undirbúning fyrir

ÓL 2016 og snýr sú vinna að unglingastarfi og skipulagi afreksstarfs.

Áfangamarkmið:

Þáttaka í þeim mótum sem telja til lágmarka fyrir Ólympíuleika og góðum æfinga og keppnisáætlunum sem skila okkur framförum í íþróttinni og nær langtímamarkmiði.

Hverjir koma að afreksstefnu STÍ :

Íþróttin:

Stjórn

Landsliðsnefnd

Fagteymi ——- Landsliðsþjálfarar

Skotíþróttamenn

Stuðningur:

ÍSÍ

Íþróttafélögin

Aðstandendur

Styrktaraðilar

Bæjarfélög

Framkvæmd:

Staðan í dag:

Skeet (ÓL-grein):

Landslið okkar í Skeet er það reynslumesta sem við höfum átt lengi. Eru fjórir skotmenn í hópnum og  munu tveir eða þrír þeirra keppa hverju sinni á mótum erlendis.

Unglingastarf er á byrjunarreit, en vegna nýlegra breytinga á vopnalögum var okkur gert kleift að hefja æfingar hjá unglingum við 15 ára aldur. Eru strax nokkrir einstaklingar farnir að ná

ágætis árangri og horfum við bjartsýnum augum á framtíðina.

Það sem háir okkur mest eru fjármálin. Vandað afreksstarf er mjög dýrt. Ef við fáum réttlátan stuðning frá þeim aðilum er standa að íþróttamálum í samræmi við það starf og þann metnað sem íþróttamenn okkar og STÍ hafa lagt í verkefnið, höfum við ekki áhyggjur.

Loftskammbyssa (ÓL-grein):

Síðustu tíu árin höfum við átt mjög frambærilega keppendur í loftskammbyssu.

Skotmenn sem hafa keppt með ágætum árangri á mótum erlendis og unnið til verðlauna á Smáþjóðaleikum og Eyjaleikum.

Það má segja að skotfimi í loftgreinum henti vel á Íslandi, þar sem skotið er inni á 10 m. færi og hægt er að stilla stærð aðstöðu eftir fjölda iðkenda á hverjum stað.

Fjöldi iðkenda eykst með hverju ári og er víst að þessi grein á mikla framtíð fyrir sér. Við erum í stakk búin að kenna og þjálfa skotmenn á byrjenda- og millistigi.

Þetta er grein sem kostar hvað minnst að stunda og því hentar hún fleirum en nokkur önnur skotgrein.

Í dag eru fjórir skotmenn í landsliðshópi, tveir í karlaflokki og tveir í kvennaflokki.

Höfum við miklar væntingar til þeirra, þar sem árangur  hefur farið fram úr björtustu vonum.

Sérstaklega horfum við til Ásgeirs Sigurgeirssonar sem hefur alla burði til að ná frábærum árangri.

50 m. riffill, liggjandi (ÓL –grein):

Grein sem á sér langa hefð á Íslandi og hefur skilað okkur góðum árangri á erlendri grund. Aðstaða er reyndar ekki góð nema í Kópavogi og í Reykjavík.

Loftriffill (ÓL-grein):

Grein sem er æfð við sömu aðstæður og loftskammbyssa.

Loftriffill er yngsta keppnisgreinin hérlendis en stöðug aukning er fyrirsjáanleg á næstu árum.

Frjáls skammbyssa (ÓL-grein):

Þessi grein er kölluð drottning skotgreina. Hún hefur verið með á nútíma Ólympíuleikum frá upphafi.  Áhugi á greininni hefur aukist með aukningu í loftskammbyssu, þar sem þetta eru skyldar greinar. Yfirleitt eru það sömu skotmenn sem skjóta loftskammbyssu og frjálsa skammbyssu, og eigum við von á miklum framförum í þessari grein. Einn skotmaður mun

hefja keppni á alþjóðlegum mótum á þessu ári.

Gróf skammbyssa / Sport skammbyssa (ÓL-grein):

Greinar sem eru töluvert skotnar hérlendis en eiginlegar æfingar á landsliðsmælikvarða eru ekki stundaðar. Ef einhver kona nær árangri í sportskammbyssu (sem er eingöngu kvennagrein) munum við leggja kraft í hana en að öðru leyti er ekki áhersla á afreksstarf í kringum þessar greinar.

Stöðluð skammbyssa:

Vinsæl skotgrein þar sem árangur er í meðallagi og við höfum lítið keppt í á erlendri grund.

Þar sem þessi grein er ekki Ólympíugrein munum við ekki leggja áherslu á afreksstarf.

Þríþraut (ÓL-grein):

Hefðbundin Ólympísk riffilgrein sem er ekki mikið stunduð hér á landi.

Keppt einungis á Íslandsmóti.

Uppbygging:

Öll uppbygging og grasrótarstarfsemi í íþróttaskotfimi er frábrugðin öðrum íþróttum hér á landi, þar sem skotmenn hafa ekki getað byrjað að stunda íþrótt sína af fullri alvöru fyrr en um tvítugt vegna ákvæða í íslenskum lögum. Þessi mismunun gagnvart öðrum löndum hefur gert okkur ókleyft að vera með unglingastarf og byggja upp íþróttamenn á þeim aldri sem þeir eru sem móttækilegastir. Það er fyrst nú með breyttum lögum frá 1999 og svo aftur 2003 að við getum byrjað kennslu frá fimmtán ára aldri í flestum greinum.

Þess ber að geta að keppnisaldur í skotíþróttum er mjög hár miðað við flestar aðrar íþróttagreinar og einnig að enginn getur hafið æfingar fyrr en við fimmtán ára aldur.

Sá lágmarks-tími sem það tekur að ná afreksárangri eru 6-10 ár, Því er skilgreining á ungum skotmanni 15 – 25 ár. Til útskýringar má nefna að Alþjóða Skotsambandið, ISSF, skilgreinir skotmenn upp að 21 árs aldri sem unglinga.

STÍ hefur nú hafið unglingastarf sem miðast við unglinga frá fimmtán ára aldri og er á dagskrá að halda námskeið til kynningar skotíþróttunum fyrir þá.

Áætlanir:

Fyrir hvert keppnistímabil (ágúst til maí í kúlugreinum og janúar til september í haglagreinum) er gerð áætlun um æfingar og ferðir landsliða og kostnaðaráætlun þar að lútandi.  Framkvæmdastjóri í samráði við þjálfara og stjórn, leggur upp áætlun sem fylgja skal í upphafi keppnistímabils og fylgist með reglulega að ekki sé farið útfyrir þann ramma sem settur er.

Framkvæmd:

Stjórn STÍ hefur umsjón með allri framkvæmd afreksstefnu og vinnur í samráði við framkvæmdastjóra og landsliðsþjálfara. Framkvæmdin sjálf er í höndum framkvæmdastjóra og þjálfara sem skila skýrslum til stjórnar. Stefnan er endurskoðuð árlega og lögð fram á skotþingi til umsagnar.

Niðurlag:

Hugur skotmanna stefnir fram á við, en allar okkar væntingar byggja á þeirri staðreynd að kostnaður við afreksstarf er mikill og fjármögnun erfið. Þær upphæðir sem Skotsambandið hefur til umráða eru litlar og frekara fjármagn þarf nauðsynlega að koma til.

Aðstaða til iðkunar skotíþrótta hefur stórbatnað á síðustu árum, sérstaklega vegna  skotsvæða Skotfélags Reykjavíkur í Egilshöll og á Álfsnesi. Einnig stendur yfir bygging skotvalla og/eða  félagsaðstöðu í Fjarðarbyggð, Grundarfirði, Hafnarfirði og Suðurlandi.

Sterk afreksstefna skilar sér út í grasrótina þar sem skotmenn fá markmið til að keppa að og almennur áhugi á íþróttinni eykst með umfjöllun um afrek. Fjármagn og aðstaða eru þeir höfuðþættir sem munu segja til um framgang afreksstefnu, og verður hún endurskoðuð að ári með tilliti til framkvæmdar þessa árs, og árangurs og stöðu hverrar skotgreinar fyrir sig.

Stjórn Skotíþróttasambands Íslands

Janúar 2009

Samþykkt á Skotþingi 2.maí 2009